Hreinsunarátaki sem samþykkt var að ráðast í á haustdögum lauk formlega þann 22. nóvember. Óhætt er að segja að átakið hafi tekist sérlega vel þar sem fyrirtæki og einstaklingar tóku virkan þátt með því að losa sig við óþarfa rusl. Lykillinn af góðum árangri liggur ekki síður hjá starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar sem sáu um alla framkvæmd verkefnisins. Samtals voru fjarlægð 150 tonn af ýmiskonar rusli, ýmist beint af lóðum eða úr söfnunargámum sem voru staðsettir víðsvegar um bæinn. Þetta er þriðja hreinsunarátakið frá því að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram ítarlegar tillögur í skipulags- og byggingarráði í ágúst 2010 um að ráðast í hreinsunarátak sem þetta, í þessum átökum hafa verið fjarlægð 330 tonn af rusli.
Skipulags- og byggingarráð.
……hefur sett sér það markmið að ekki verði staðar numið fyrr en búið verði að fjarlægja allt rusl af iðnaðar- og íbúðarlóðum bæjarins, áfram verður unnið markvist að hreinsun þar sem umgengni er ábótavant. Lóðarhafar á iðnaðarsvæðum hafa fengið bréf þar sem þeir eru hvattir til að laga til í sínu nánasta umhverfi, margir hafa tekið þessu vel en því miður eru allt of margir sem ekki virðast hafa skilning á hve mikilvægt það er fyrir okkur sem samfélag að umhverfismál séu sett í forgang.
Gámabyggðin.
……í Hafnarfirði setur sinn svip á iðnaðarhverfin. Talið er að rúmlega 800 gámar séu víðsvegar í þessum hverfum, þá eru ekki taldir með gámar sem hafa stutt stopp við fyrirtæki. Skipulags- og byggingarráð hefur til skoðunar að setja nýjar reglur um stöðuleyfi fyrir gáma. Til greina kemur að innheimta gjald af gámum sem standa á lóðum í langan tíma. Á höfuðborgarsvæðinu eru þrjú geymslusvæði fyrir gáma þar af eitt í Hafnarfirði, þeim lóðarhöfum sem ekki hafa eða fá ekki stöðuleyfi munu geta flutt sína gáma á þessi svæði. Það er von mín að allir Hafnfirðingar sameinist um að bæta ásýnd bæjarins og upplandsins með bættri umgengni, þannig aukum við vellíðan og ánægju með okkur sjálf og bæinn okkar.
Með ósk um gleðilegt nýtt og umhverfisvænt ár.
Ó. Ingi Tómasson
Bæjarfulltrúi
Formaður skipulags- og byggingarráðs.