Nýfallinn dómur í máli þar sem Vestmannaeyjabær sætti sig ekki við sölu útgerðarfyrirtækisins Berg-Hugin til Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupsstað styrkir stöðu Hafnarfjarðarbæjar í þeirri ákvörðun að krefjast forkaupsréttar á skipi og aflaheimildum Stálskipa ehf. Þegar frystitogarinn Þór var seldur úr bænum var ekki farið að lögum um stjórn fiskveiða en í þeim er kveðið skýrt á um að sveitarfélagið eigi forkaupsrétt og að hann skuli boðinn sveitarfélaginu skriflega. Því miður sáu eigendur útgerðarinnar Stálskip ehf. ekki ástæðu til að bjóða Hafnarfjarðarbæ forkaupsréttinn.
Málsókn?
Samkvæmt lögum hefur Hafnarfjarðarbær 6 mánuði frá því að tilkynnt var um söluna til að höfða mál vegna forkaupsréttarins og er langt liðið á þann tímafrest. Við Sjálfstæðismenn munum styðja það að farið verði alla leið með þetta mál. Við höfum frá því að sala Stálskipa ehf. á skipi og kvóta kom upp fylgst vel með framvindu málsins og unnið að framhaldi þess með fulltrúum annarra flokka. Það er von mín að ekki þurfi að koma til málsóknar svipað og gerðist í Vestmannaeyjum heldur muni sjávarútvegsráðherra taka af skarið og úrskurða okkur í vil eins og hann hefur vald til samkvæmt lögum.
Atvinna í húfi.
Aflaheimildir Stálskipa ehf. á Íslandsmiðum voru um 4.800 þorskígildistonn sem er samkvæmt mínum heimildum hátt í 60% úthlutaðra aflaheimilda til hafnfirskra útgerða. Það skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið og höfnina að tryggt sé að aflaheimildir Stálskipa ehf. verði hér í bænum. Fiskvinnslan hefur átt undir högg að sækja hér í Hafnarfirði og munu því auknar aflaheimildir styrkja stöðu þeirrar mikilvægu atvinnugreinar auk þess sem verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir Hafnarfjörð í tekjum tengdri þessari atvinnugrein.