Ungt fólk lendir oft í því að stjórnmálamenn taki ákvarðanir um málefni er varða þau án nokkurs samráðs við unga fólkið. Skemmst er að nefna dæmi eins og styttingu framhaldsskólans í þrjú ár.
Í kjölfar lögfestingar Barnasáttmálans er það orðin lögboðin skylda stjórnvalda að leita markvisst eftir röddum ungs fólks í öllum málum er varða þau með einum eða öðrum þætti. Til að uppfylla forsendur sáttmálans er því nauðsynlegt að tryggja að raddir ungs fólks heyrist í samfélaginu öllu, hvort sem það er á framboðslistum stjórnmálaflokka eða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það mæðir því enn meir á samfélaginu okkar að tryggja að breiður hópur fólks úr ólíkum áttum, með ólíkan bakrunn og lífsreynslu fái tækifæri til að láta rödd sína heyrast á vettvangi sveitarstjórnarmála. Við, unga folkið eigum klárlega að eiga okkar fulltrúa á þeim vettvangi, enda erum við sérfræðingar í því að vera börn og ungmenni og höfum beina reynslu af þjónustu sveitarfélagsins. Við getum gefið verðmæt ráð um hvernig hægt sé að bæta skólakerfið og stuðla að því að öllu ungu fólki í bænum líði vel.
Mér finnst mikilvægt að tryggja að að ungmennaráð Hafnarfjarðar hafi öfluga tengingu við stjórnsýslu bæjarins. Tryggja þarf að ferlar séu til staðar sem stuðla að því að öll mál er varða börn og ungmenni í bænum séu send til umsagnar ungmennaráðsins. Hafnarfjarðarbær mætti einnig taka fyrirkomulag nefndarsetu á Seltjarnarnesi sér til fyrirmyndar. Fulltrúar ungmennaráðs Seltjarnarnesbæjar eiga eitt sæti í öllum nefndum bæjarins, þau fá þannig raunveruleg tækifæri til að taka þátt í og hafa áhrif á ákvarðanir ráðamanna. Þetta er eitthvað sem mér finnst að öll sveitarfélög ættu að taka til sín. Það væri til fyrirmyndar ef Hafnarfjörður tæki sama fyrirkomulag upp og væri í fararbroddi þegar kemur að þátttöku barna og ungmenna. Mun ég leggja mig allan fram í að vinna öttulega að þessum málum og vinna einning náið með ungmennráði Hafnarfjarðar með það að markmiði að búa til enn sterkara og áhrifameira ráð.
Verðum við einnig að hafa það á bak við eyrað að barnæskan er ávallt mismunandi eftir einstaklingum og munum við þurfa að setja upp heimasíðu á vegum bæjarins þar sem ungt folk getur komið skoðunum sínum til bæjarins.