Skipulags- og byggingarráð (SBH) hefur frá því í vor sett nokkur mikilvæg verkefni af stað. Fyrst skal nefna Skarðshlíðina þar sem ráðið samþykkti þ. 1.7. sl. að hlé verði gert á lóðarúthlutunum. Horft er til þess að skipulag svæðisins og nýting taki sem best mið af þörf markaðarins um minni og hagkvæmari sérbýli og fjölbýli. Skipaður hefur verið hópur sérfræðinga sem munu skila tillögum fljótlega. Markmiðið er að geta boðið upp á ódýrar lóðir með möguleika á hagkvæmu sérbýli í bland við stærri sérbýli ásamt íbúðum í fjölbýli fyrir alla markhópa.
Flensborgarhöfn
Smábátahöfnin sem gjarnan er nefnd Flensborgarhöfn er ein af okkar dýrmætustu perlu. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar sem samþykkt var síðasta vor segir m.a. „Í þessari endurskoðun er notkun þess (Flensborgarhafnar, innskot greinarhöfundar) breytt, þannig að það verður nú skilgreint sem blanda af hafnarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði.“ Í þessu felst að svæðið verði notað fyrir fjölbreytta starfsemi sem tengist hafinu á einhvern hátt, söfnum, veitingastöðum, gistiaðstöðu, og að sjálfsögðu smábátahöfn, siglingaklúbbnum og tengdri starfsemi. Efnt var til fundar í Kænunni þar sem kynnt var ákvörðun skipulags- og byggingarráðs um að ráðast í gerð skipulagslýsingar með það að markmiði að ná samkomulagi við hagsmunaaðila og bæjarbúa um framtíðaruppbyggingu svæðisins. Framhald vinnunar ræðst svo af því hvort hagsmunaaðilar á skipulagssvæðinu séu sammála um leiðir til uppbyggingar.
Þétting byggðar – Svæðisskipulag
Vinna við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins er langt komin og hefur verið mörkuð sú stefna að byggja inn á við með vistvænu skipulagi, þetta þýðir að leitast verði við að þétta núverandi byggð þar sem því verði komið við. Kostir þessarar stefnu eru að innviðir samfélagsins sem við höfum fjárfest í nýtast betur, má þar nefna samgöngumannvirki, skóla og íþróttahús. Með þetta að leiðarljósi samþykkti SBH að skipaður yrði ráðgjafahópur til að gera tillögu að þróunarsvæðum innan núverandi byggðar í Hafnarfirði í samræmi við stefnu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Hópnum er ætlað að skila tillögum fyrri part næsta árs.
Einnig
………….ber að geta hreinsunarátaks sem nú er í fullum gangi. SBH samþykkti að setja af stað átakið og nú yrði gengið lengra en í fyrri átökum. Gámum hefur verið komið fyrir víðsvegar um bæinn, gengið hefur verið í fyrirtæki og hvatt til betri umgengni þar sem það á við. Þó svo að átakinu ljúki formlega 22. nóvember erum við hvergi hætt og verður haldið áfram með aðgerðir þar sem umgengni er ábótavant. Þetta og margt fleira hefur verið á dagskrá SBH þar sem samstarf allra fulltrúa í ráðinu hefur verið mjög gott. Hægt er að skoða fundargerðir á heimasíðu Hafnarfjarðar hérna