Fjölskylduráð samþykkti á síðasta fundi sínum þann 11. september að veita verkefninu „Atvinnuúrræði fatlaðs fólks á vegum Hafnarfjarðarbæjar „ brautargengi með því að leggja fjármagn í verkefnið til eins árs í tilraunaskyni. Markmið verkefnisins er að ná fram nýsköpun í atvinnuúrræðum fyrir fatlaða einstaklinga sem lokið hafa námi og eru á leið út í atvinnulífið. Sett verður á laggirnar tilraunasmiðja þar sem skapa á ný störf og vinna að verkefnum sem sniðin verða og þróuð að þátttakendum sjálfum.
Farið verður í vinnustaðaheimsóknir og unnið að fræðslu sem miða að því að styðja ungmennin í starfi á vegum þessa úrræðis eða til vinnu á öðrum vettvangi. Ásamt nýsköpun í framleiðslu á vöru eða þjónustu verður hugað að því að halda úti félagsstarfi og ráðgjöf um atvinnumál og afþreyingu. Verkefnið er til eins árs í senn og verður stýrt af verkefnastjóra hjá félagsþjónustu Hafnarfjarðar með aðsetur í Húsinu, Staðarbergi.