Á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar þar sem fjallað er um hverfin og skipulag segir m.a. um miðbæinn: „Miðbær Hafnarfjarðar er miðstöð opinberrar þjónustu í Hafnarfirði og verður efldur sem einn af helstu kjörnum verslunar, þjónustu og menningar á höfuðborgarsvæðinu.Markmið skipulagsins er að í miðbæ Hafnarfjarðar sé mikið framboð verslunar og þjónustu og þar sé líflegt mannlíf og menningarstarfsemi sem laði að bæði íbúa og ferðamenn.“
Verslun og þjónusta.
Nú vitum við öll að miðbærinn er hvorki miðstöð opinberrar þjónustu né einn af helstu kjörnum verslunar, þjónustu og menningar á öllu höfuðborgarsvæðinu. Sýslumaður flutti á Bæjarhraunið og ÁTVR mun flytja úr Firði þannig að opinber þjónusta fjarlægist miðbæinn sem er miður. Á sama tíma hefur jákvæð þróun verið t.d. á Strandgötu. Þar hafa vinsælar verslanir með handverk og veitinga- og kaffihús opnað og Víkingaþorpið sem á engan sinn líka er þar starfrækt. Allt er það góð þróun fyrir miðbæinn. Einnig hafa nokkrar verslanir fest sig í sessi í Firði sem á eftir að eflast þegar fram líða stundir. Nýtt hús með verslunarkjarna mun rísa fljótlega á Strandgötunni aftan við Fjörð sem mun styrkja starfsemi í miðbænum því skortur er á góðu verslunarrými þar.
Skipulagið
Þó svo að umgjörð miðbæjarins sé ein sú besta á landinu frá náttúrunnar hendi ber skipulag miðbæjarkjarnans þess ekki merki að svo sé. Því miður hafa skammtímahagsmunir oftar en ekki ráðið för í skipulaginu þar sem stórar byggingar hafa orðið fyrir valinu í stað lágreistar, þéttrar og samfelldrar byggðar sem hefði fallið betur að byggðinni í kring með tilheyrandi þjónustu. Unnið er að skipulagi svæða við miðbæinn þ.á.m. á Dvergsreitnum þar sem gert verður ráð fyrir húsum sem samsvara sig að nærliggjandi byggð. Einnig hefur svæðið frá Drafnarslippnum að Flensborgarhöfn verið til umfjöllunar en mikilvægt er að skipulagið þar byggi á þjónustumiðaðri byggð þar sem við bæjarbúar og aðrir geti notið handverks og veitinga í návist við höfnina. Miðbær Hafnarfjarðar hefur alla burði til þess að verða einn af helstu kjörnum verslunar, þjónustu og menningar á höfuðborgarsvæðinu. Við Hafnfirðingar höfum tækifæri í skipulaginu og þurfum að sameinast um að byggja upp miðbæinn okkar til framtíðar en ekki með skammtímahagsmuni að leiðarljósi.