Kæru Hafnfirðingar, ég hef ákveðið að bjóða mig fram í baráttu fyrir betra bæjarfélagi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði sem fram fer 10. mars og stefni ég á þriðja sætið. Með hag bæjarbúa að leiðarljósi óska ég eftir stuðningi ykkar í að gera góðan bæ betri.
Ég er menntaður iðnrekstrarfræðingur og er að klára mastersnám í forystu og stjórnun nú á vormánuðum.
Mér eru hugleikin málefni eldri borgara, skipulags- og lóðamál, en ekki síst húsnæðismálin. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að ungu fólki verði gert auðveldara að eignast eigið húsnæði. Samgöngumálin eru Hafnfirðingum ofarlega í huga. Halda þarf áfram viðræðum við ríkið og vegagerðina og þrýsta á úrbætur sem nauðsynlegar eru til að greiða fyrir umferð og auka umferðaröryggi.
Ég vil að forgangsraðað verði í þágu heilsu-, íþrótta- og aukinna lífsgæða bæjarbúa og að heilsubærinn Hafnarfjörður verði efldur enn frekar. Einnig er nauðsynlegt að koma á meiri samfellu í skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi barna.
Með þetta að leiðarljósi heldur Hafnarfjörður áfram að vera eftirsóknarverður bær til að búa og starfa í.