Ég býð mig fram til að skipa áfram 2. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar og að treysta áfram öfluga og samhenta forystu okkar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
Á liðnu kjörtímabili hef ég setið í bæjarráði og jafnframt starfað í umhverfis- og framkvæmdaráði og fjölskylduráði, auk annarra verkefna fyrir bæjarfélagið. Við upphaf kjörtímabilsins kom það einkum í minn hlut sem 2. fulltrúa á lista okkar sjálfstæðismanna að starfa með oddvita okkar að því árangursríka meirihlutasamstarfi af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem við höfum átt í bæjarstjórn.
Ég legg áherslu á að styrkja áfram rekstur og fjármál Hafnarfjarðarbæjar, að þjónusta við íbúa og fyrirtæki verði efld enn frekar og áfram verði dregið úr álögum og gjöldum með skynsamlegum hagræðingum og umbótum í rekstri. Mér er umhugað um menningu og mannlíf í Hafnarfirði, áframhaldandi eflingu í fræðslumálum og að við skilum nemendum okkar með góða menntun út í líf og störf 21. aldarinnar.
Ég er 59 ára prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, en þangað kom ég með yfir 20 ára reynslu úr störfum hjá hátæknifyrirtækinu Marel þar sem ég stýrði innlendum og erlendum rannsókna- og tækniþróunarverkefnum. Ég lauk verkfræðiprófi frá Háskóla Íslands og meistara- og doktorsprófi frá Vanderbilt háskóla í Bandaríkjunum, þar sem ég stofnaði og starfrækti verkfræðifyrirtæki ásamt öðrum með námi.
Ég var formaður Verkfræðingafélags Íslands 2011-2016 og formaður Íslandsdeildar alþjóðlega verkfræðingafélagsins IEEE 2003-2007. Ég hef komið að margvíslegum ráðgjafarstörfum og stuðningi við tæknifyrirtæki og sprota í atvinnulífinu hérlendis sem erlendis.
Ég hef tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins um áratuga skeið, var m.a. formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði 1999‑2004, sat í kjördæmisráði suðvesturkjördæmis og hef gegnt formennsku menntamála- og allsherjarnefndar Sjálfstæðisflokksins.
Áhugamál mín eru hjólreiðar og göngur, vísindi, saga, menning og tónlist, en ég lagði stund á klassískt píanónám á yngri árum. Ég lauk fjarskiptaprófi radíóamatöra og hef sinnt því áhugamáli um langt skeið. Eiginkona mín er Þuríður Erla Halldórsdóttir, hárgreiðslumeistari, og við eigum tvo syni, 29 og 23 ára.