Allir sem mig þekkja vita að ég brenn fyrir hag Hafnarfjarðar og bættum lífsgæðum okkar sem hér búum. Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hef ég verið fyrsti varabæjarfulltrúi og tekið þátt í mörgum spennandi og mikilvægum verkefnum fyrir bæinn okkar. Ég er formaður Menningar- og ferðamálanefndar og sit í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar.
Fjölskyldumálin standa hjarta mínu næst og sem formaður foreldrafélags Setbergsskóla hef ég átt farsælt samstarf með skólastjórnendum í að gera góðan skóla enn betri. Ég hef markvisst unnið að því að bæta starfsumhverfi og umfram allt tækifæri fyrirtækja hér í bænum.
Mér hefur verið treyst fyrir mikilvægum verkefnum sem hafa gengið vel og leitt margt jákvætt af sér fyrir okkur bæjarbúa. Mér finnst gott og gefandi að geta lagt mitt að mörkum við að gera bæinn okkar betri, hafa ábyrgð og áhrif til að bæta lífsgæði Hafnfirðinga til framtíðar. Okkur sjálfstæðismönnum hefur sannarlega tekist að klára mörg mikilvæg verkefni á kjörtímabilinu og mörg spennandi verkefni eru framundan.
Sveitarstjórnarmálin eru samvinnuverkefni okkar allra. Mig langar að beina kröftum mínum enn frekar í þágu bæjarins en til þess þarf ég á stuðningi ykkar að halda. Ég vona að þið veitið mér tækifæri til að leggja mitt að mörkum til að bæta lífsgæði okkar Hafnfirðinga til framtíðar.
Saman gerum við góðan bæ enn betri!