Hreint vatn eru lífsgæði sem við tökum sem gefnum. Kalda vatnið úr Kaldá er sjálfrennandi og kemur í kranann án þess að við séum svo mikið að leiða hugann að því, svo sjálfsagt er það í hugum okkar enda hefur uppsprettan þjónað okkur í næstum 100 ár. Vatnsbólin í Kaldárbotnum sækja vatn í Kaldárstraum sem síðan tengist Vatnsendakrikum sem er sameign sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Orkustofnun hefur nú samkvæmt úrskurði dags.17. Ágúst 2015 heimilað aukna vatnstöku til Orkuveitu Reykjavíkur og Vatnsveitu Kópavogs í Vatnsendakrikum samræmi við innsenda beiðni þessara sveitarfélaga dags. 24. Apríl 2013. Reiknilíkön sýna að þessi ákvörðun mun hafa veruleg áhrif á vatnsbúskap Hafnarfjarðar og við því þarf að bregðast.
Aukin vinnsla úr Vatnsendakrikum sæti umhverfismati!
Hafnarfjarðarkaupstaður hefur mótmælt því að heimild Orkustofnunar til aukinnar vinnslu úr Vatnsendakrikum sæti ekki umhverfismati og bíður eftir úrskurði hjá úrskurðarnefnd Skipulagsstofnar. Fyrir liggur að svo mikil aukning vatnstöku úr Vatnsendakrikum eins og Orkustofnun hefur nú heimilað Orkuveitu Reykjavíkur og Vatnsveitu Kópavogs mun hafa veruleg áhrif á vatnsstöðu í lögsögu Hafnarfjarðar en þau reiknilíkön sem lögð hafa verið fram um hugsanleg áhrif sýna að vatnsbúskapur í landi Hafnarfjarðar mun breytast verulega verði þessi áform að óbreyttu og vatnsyfirborð lækka bæði í Kaldá og t.d. Hvaleyrarvatni auk þess sem fyrir liggur að í stað þess að Hafnarfjörður hafi sjálfrennandi vatn eins og nú er að öllu jöfnu þá muni koma til þess að dæla þurfi drykkjarvatni til bæjarbúa.
Vatn er sameiginleg auðlind
Nýtt svæðisskipulag vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu tók gildi um mitt þetta ár Skipulagið samanstendur af afmörkun verndarsvæða og samþykkt nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu en ýmsar breytingar hafa orðið á lagaumhverfi og þróun landnýtingar í nágrenni verndarsvæða sem gefa tilefni til endurskoðunar. Með þessari endurskoðun er ekki lengur um sérstakt svæðisskipulag vatnsverndar að ræða heldur mun afmörkun vatnsverndar ásamt samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla verða hluti af svæðisskipulagi höfuðborgarssvæðisins. Það er því enn mikilvægara en áður að virkja samráð milli hagsmunaaðila um umgengni og nýtingu á þessari mikilvægu sameiginlegu auðlind okkar sem vatnið er. Þar þarf að huga að heildarnýtingu á sem hagkvæmastan hátt, sporna við sóun, framkvæma umhverfismat og gæta jafnræðis milli svæða.
Helga Ingólfsdóttir
Bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins
Formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs