Ég býð mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og óska eftir stuðning í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Er giftur Önnu Pálsdóttir hárgreiðslumeistara, eigum við tvö börn, Pál og Hjördísi Ýr og tvö barnabörn, Ninju og Nóa.
Er 64 ára menntaður húsasmiður og starfaði lengst af hjá slökkviliði varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli jafnframt stofnaði og starfrækti ég Fjarðarplast sf. ásamt tengdaföður mínum í 16 ár samhliða starfinu í slökkviliðinu.
Var virkur í félagsstarfi slökkviliðsmanna, seinni árin hef ég einbeitt mér að málefnum Hafnarfjarðarbæjar og tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði þar sem ég var gjaldkeri á árunum 2007-2014.
Á árunum 2006-2014 gegndi ég mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði, var m.a. í hafnarstjórn, skipulags- og byggingarráði og umhverfis- og framkvæmdaráði. Ég skipaði 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í síðustu sveitarstjórnarkosningum, er formaður skipulags- og byggingarráðs og er í hafnarstjórn.
Ég mun fylgja eftir þeim góða árangri sem við höfum náð í rekstri og fjármálum Hafnarfjarðarbæjar sem er forsenda enn betri þjónustu og lægri gjalda á okkur íbúa. Atvinnu- skipulags- samgöngu- og umhverfismál hafa verið fyrirferðamest hjá mér á kjörtímabilinu en hef haft aðkomu að flestum málaflokkum sem eru til umfjöllunar í sveitarfélaginu.
Ég vonast til að sem flestir taki þátt og hafi áhrif í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.