Þetta er spurning sem ég spyr dóttur mína á hverjum degi þegar ég sæki hana í leikskólann. Mér finnst gaman að heyra hvað hún hefur verið að bralla með vinum sínum og kennurum. Það er forsenda góðs leikskólastarfs að börnunum okkar líði vel þar og einnig starfsfólkinu sem hugsar um þau. Ég sit í starfshópi sem fræðsluráð Hafnarfjarðar setti á laggirnar síðastliðið haust sem einblínir á að bæta vinnuumhverfi í leikskólum bæjarins og minnka álag. Hugmyndir sem hafa meðal annars komið fram er að gera tilraun um styttri vinnuviku hjá starfsfólki og endurskoða áfram stærð leikrýma og æskilegan fjölda barna í hóp. Fræðsluráð hefur tekið fyrstu skrefin í þá átt í nokkrum leikskólum bæjarins.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið ráðist í margar góðar aðgerðir til að styrkja leikskólastarfið. Meðal annars hefur verið komið til móts við aukna þörf á stuðningsþjónustu, undirbúningstími starfsfólks verið aukinn og yfirvinnustundum fjölgað. Framundan er stóraukið viðhald á lóðum og húsnæði leikskólanna en fjármagn til þess var tvöfaldað á milli ára. Innritunaraldur á leikskóla hefur verið lækkaður jafnt og þétt og nú fá 15 mánaða börn pláss á leikskólum. Leikskólagjöld hafa staðið í stað allt tímabilið og niðurgreiðslur á daggjöldum til dagforeldra hækkaðar. Nýr leikskóli, Bjarkalundur, var opnaður og í Skarðshlíð rís nú nýr leik- og grunnskóli og á þessu ári mun hefjast undirbúningur á byggingu leikskóla í suðurbæ/miðbæ. Höldum áfram að gera góða hluti fyrir leikskólana okkar í Hafnarfirði bæði fyrir börn og starfsfólk.
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varaformaður ÍTH, 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fjarðarpóstinum.