Minnihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur miklar áhyggjur af því að nemendur í nýstofnuðum einkaskóla Framsýnar séu nálægt hamborgarastað í næsta húsi og einnig að þeir tengist nemendum Tækniskólans of mikið. Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli minnihlutans á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir sumarfrí en fulltrúar minnihlutans höfðu óskað eftir því að ræða athugasemd sem heilbrigðiseftirlitið hefur gert við fjölda salerna og vaska í húsnæði nýja skólans, sem áður hýsti nemendur Iðnskóla Hafnarfjarðar. Athugasemd heilbrigðiseftirlitsins er í eðillegu ferli, þar sem farið hefur verið fram á úrbætur, en málið er ekki á herðum bæjarfélagsins. Samt fékk það mikið vægi á fundi bæjarstjórnar en minnihlutanum fannst ástæða til að ræða það í hátt í tvo klukkutíma og var þetta aðal málið sem brann á fulltrúum Samfylkingar og VG nú á haustdögum. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar benti á það í bókun sinni að málið yrði unnið samræmi við gildandi lög og reglugerðir eins og venjan er hjá stofnun eins og heilbrigðiseftirlitinu.