Eftir að hafa búið næstum alla mína ævi í Hafnarfirði lít ég á Hafnarfjörð sem fjörðinn minn og er það ekki síst vegna þess að í honum finnst mér frábært að búa! Fjörðurinn okkar er líflegur og býður Hafnfirðingum, gestum og gangandi upp á ýmis konar afþreyingu sem hægt er að nýta sér í sumarfríinu. Við eigum til dæmis þrjár frábærar sundlaugar og fyrir utan eina þeirra eru þrek og þjálfunartæki. Á Víðistaðatúni getur öll fjölskyldan fundið eitthvað við sitt hæfi, hægt er að rölta um túnið, fara í pikknikk, príla í hrauninu, skella sér í strandblak, tennis eða taka einn hring af folfi á frisbí golfvellinum sem teygir sig um túnið. Meðfram norðubakkanum og höfninni er skemmtilegur göngustígur og tilvalið að enda gönguferðina á því að veiða sér í soðið. Gaman er að fá sér göngutúr í gegnum miðbæinn, skoða lækinn, gefa öndunum og enda upp á Hamrinum með frábært útsýni yfir stór Hafnarfjarðarsvæðið. Upplönd Hafnarfjarðar eru kjörin fyrir útivist, hægt er að fara í fjallgöngu upp á Helgafell, útreiðartúr, skoða skógræktina, ganga meðfram Hvaleyrarvatni og bleyta færi ef stemming er fyrir því.
Hellisgerði er paradís okkar Hafnfirðinga, þar er hægt að gleyma sér inn á milli trjánna og í allri álfaorkunni. Þar er einnig lítill skemmtilegur leikvöllur, bekkir og álfabúð. Vert er að minnast á það að það er frítt á öll söfn í Hafnarfirði, alltaf – fyrir alla. Síðast en ekki síst er það miðbærinn okkar, þar eru ýmsar búðir sem selja allt milli himins og jarðar, bíó, fjöldinn allur af veitingastöðum, kaffihúsum og ísbúð.
Með þessari upptalningu vil ég hvetja ykkur til að njóta sumarsins innan Hafnarfjarðar og alls þess sem fjörðurinn okkar hefur upp á að bjóða. Gaman væri ef þið mynduð merkja myndirnar ykkar #fjörðurinnminn á samfélagsmiðlum þegar þið gerið eitthvað skemmtilegt innan Hafnarfjarðar. Þannig gefst okkur Hafnfirðingum tækifæri til að sjá hvernig fólk fer ólíkar leiðir að því að njóta lífsins lystisemda og alls þess sem fjörðurinn okkar hefur upp á að bjóða. Upptalning mín er alls ekki tæmandi og því gaman að sjá hverju bæjarbúar miðla.
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir
Gaflari