Mikið verður um dýrðir í firðinum okkar á 17. júní hátíðardaginn eins og fyrri ár. Mikil og góð stemming hefur myndast í bænum og það er mjög gaman þegar við Hafnarfirðingar komum saman og fögnum þessum degi með bros á vör. Dagskráin er með glæsilegasta móti og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Að þessu sinni hefst skrúðgangan við skátaheimilið Hraunbyrgi við Hjallabraut. Áður en hún hefst fagna skátarnir 20 ára afmæli skátamiðstöðvar sinnar og það verður eflaust ánægjulegt að gleðjast með þeim á þessum tímamótum á fallega svæðinu þeirra. Leið skrúðgögnunnar, sem verður vonandi með fjölmennasta móti í frábæru veðri, liggur svo eftir sjávarsíðunni og inn Strandgötuna að Thorsplani þar sem hátíðarhöldin hefjast. Á Thorsplaninu verður flott dagskrá fyrir alla aldurshópa og munu meðal annars troða upp; Gunni og Felix, Skoppa og Skrítla, Víkingar munu sýna bardagalistir sínar, Emmsjé Gauti og að lokum Júlladiskó. Það verður einnig mikið um að vera út um allan bæ og meðal annars verða leiktæki fyrir börnin, hægt að fara í borðtennis, bogfimi, klifra upp gamla pósthúsið, sigla á Læknum og fara á hestbak. Íbúar Austurgötunnar munu bjóða heim að venju og verður gaman að heimsækja þau eins og fyrri ár þar sem hægt verður að fá sér eitthvað í gogginn og kaupa varning, bæði gamlan og nýjan.
Gaman verður að gleðjast á þessum degi í heimabyggð og við Hafnfirðingar megum vera stolt af okkar blómstrandi bæ á degi sem þessum. Framkvæmdarnefnd og starfsmenn bæjarins eiga hrós skilið fyrir frábæra dagskrá og skipulagningu.
Sjáumst á 17. júní í Hafnarfirði!
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir
Situr í Þjóðhátíðarnefnd og er varaformaður Íþrótta- og tómstundarnefndar Hafnarfjarðar.