Ég gef kost á mér í 3.-4. sæti því ég hef einlægan áhuga á að vinna að ýmsum góðum málum fyrir bæinn okkar Hafnarfjörð – gera hann ennþá betri fyrir okkur öll.
Ég er 33 ára og starfa sem mannauðsstjóri hjá Stofnfiski. Er fædd og uppalin á Kirkjuveginum og bý í dag á Norðurbakkanum ásamt eiginmanni mínum, Gísla Má Gíslasyni, hagfræðingi, og börnum okkar sem eru 3 ára og 6 mánaða.
Undanfarin ár hef ég sinnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Hafnarfjarðarbæ og Sjálfstæðisflokkinn. Er varaformaður Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar, hef veriðí starfshópi um málefni dagforeldra og er nú í starfshópi um bættar starfsaðstæður á leikskólunum. Ég tel að sífellt sé hægt efla og bæta þjónustuna í dagvistunarmálum barna og til barnafjölskyldna almennt. Það er mikilvægt að stuðla að enn meiri samfellu í skóla-, íþrótta-, og tómstundastarfi hafnfirskra barna. Ég legg áherslu á að styðja áfram vel við það frábæra íþrótta- og tómstundastarf sem hafnfirskum ungmönnum stendur til boða. Nú þegar fjárhagsleg staða bæjarins hefur batnað skapast tækifæri til að efla þjónustuna við bæjarbúa enn frekar.
Ég hef víðtæka menntun og stunda nú meistaranám í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði við Háskólann í Reykjavík. Hef áður lokið MA-gráðu í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands og BA-gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Ég hef alla tíð tekið virkan þátt í félagsstarfi og er varaformaður í stjórn Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar, sit í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, og í varastjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna. Áður var ég í stjórn Stefnis, félagi ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. Einnig er ég í skólanefnd míns gamla skóla Menntaskólans í Reykjavík.
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir