Íbúafundur bæjarstjóra um fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar virðist hafa valdið miklum titringi hjá minnihlutanum í bæjarstjórn, einkum á meðal fulltrúa Samfylkingarinnar sem bera megin ábyrgð á fjárhags- og skuldastöðu sveitarfélagsins. Í aðdraganda fundarins dúkkuðu fulltrúarnir upp með alls kyns upphrópanir og rangfærslur í garð meirihlutans. Markmiðið var að gera störf og áætlanir meirihlutans og bæjarstjóra tortryggilegar og reyna að ýta undir óánægju.
Í þeim aðstæðum og tilgangi er gott að eiga góða að á fjölmiðlunum enda hefur leiðin þar inn verið greið undanfarna daga, einkum á Fréttablaðið og aðra miðla 365. Þegar flokksbundnir Samfylkingarmenn eru á vaktinni á blaðinu er ótrúlegustu málum og ,,ekkifréttum“ úr Hafnarfirði slegið upp gagnrýnislaust. Þegar fyrrverandi frambjóðendur og kosningastjórar Samfylkingarinnar eru þar að störfum og fráfarandi formenn ungra jafnaðarmanna hleypa félögum sínum einum að míkrófóninum, þá er eðlilegt að lesendur og hlustendur séu á varðbergi.