Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt tillögu fræðsluráðs um að auka fjárveitingu til bóka- og föndurvörukaupa í leik- og grunnskólum bæjarins. Fyrir áramót skoruðu bókasafns- og upplýsingafræðingar í grunnskólunum á fræðsluyfirvöld að tryggja skólabókasöfnunum meira fjármagn til að kaupa bækur því það gæti haft úrslitaáhrif á læsi barna í Hafnarfirði. Þessa ósk ítrekuðu skólastjórar leik- og grunnskólanna á fundum með bæjarstjóra og sviðsstjóra fræðslusviðs í byrjun janúar.
Læsisverkefnið, Leikur er lífsins leikur, hefur verið í gangi undanfarin misseri í hafnfirskum skólum og til að það geti aukið áhuga barna og unglinga á lestri er mikilvægt að nóg sé til af bókum á bókasöfnum skólanna. Fræðsluráð lagði því til að fjárveiting til bókakaupa og föndurvara fyrir leikskólana, yrði aukin um 50%. Einnig var lagt til að bíó- og bókahátíð barnanna, sem haldin verður í febrúar, yrði styrkt. Samtals nemur þessi aukna fjárveiting 3,6 milljónum króna. Aukin fjárveiting fæst með hluta þeirrar umfram hagræðingar sem fengist hefur við útboð þjónustuþátta, en gert hafði verið ráð fyrir í yfirstandandi fjárhagsáætlun.
Bæjarstjórn samþykkti tillöguna samhljóða á fundi sínum í gær.