Rekstrarafkoma Hafnarfjarðarbæjar fór fram úr björtustu vonum á síðastliðnu fjárhagsári. Sú jákvæða niðurstaða kemur fram í nýframlögðum ársreikningi fyrir árið 2017. Afgangur af rekstrinum nam 1326 milljónum króna og var hann 770 milljónum króna meiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þá var veltufé frá rekstri 3.646 milljónir króna eða um 14,4% af heildartekjum.
Það sem skiptir miklu máli í þessari góðu niðurstöðu er að annað árið í röð voru engin ný lán tekin og langtímaskuldir greiddar meira niður en ráð var fyrir gert. Þá voru allar framkvæmdir ársins fjármagnaðar fyrir eigið fé bæjarins. Meðal helstu framkvæmda eru bygging nýs skóla í Skarðshlíð, hjúkrunarheimilis við Sólvang og æfinga- og kennsluhúsnæðis að Ásvöllum.
Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar er nú komið niður í 135% sem sýnir að fjárhagur sveitarfélagsins hefur styrkst verulega undanfarin ár og hefur skuldaviðmiðið lækkað mun hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bærinn er því ekki lengur undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Með auknum fjárhagsstyrk bæjarins hefur fjármagnskostnaður lækkað á milli ára og er mjög mikilvægt að sú þróun haldi áfram, enda er peningum bæjarbúa betur varið á flestan annan hátt en í vaxtagjöld.
Ráðdeild og festu áfram
Þessi góða rekstrarniðurstaða kemur í kjölfar ítarlegrar endurskipulagningar á rekstrinum og sýnir að með ráðdeild, aga og skynsamlegri fjármálastjórn er hægt að ná góðum árangri á tiltölulega skömmum tíma. Við Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði viljum halda áfram á sömu braut á næstu árum. Styrkja enn frekar fjárhagsstöðu bæjarsjóðs en einmitt þannig er unnt að efla þjónustu við bæjarbúa, halda áfram að lækka álögur og gjöld og ráðast í ný verkefni. Markmiðið er að koma Hafnarfirði í allra fremstu röð sveitarfélaga í landinu þegar litið er til fjárhagslegs styrks, hás þjónustustigs og hóflegrar gjaldtöku. Við erum á réttri leið og fáum við Sjálfstæðismenn umboð kjósenda nú í vor, þá mun sú ráðdeild og festa sem einkennt hefur þetta kjörtímabil halda áfram í Hafnarfirði, bæjarbúum öllum til heilla.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2018 í kjölfar þess að ársreikningur 2017 var lagður fram.