Í janúar 2012 skrifaði ég grein í Fjarðarpóstinn undir heitinu „Byggingastig og fasteignagjöld“ tilefni greinarinnar var að ég hafði fengið vitneskju um að fjöldi eigna væru ranglega skráðar til fasteinga- og matsstigs og tekjutap Hafnarfjarðarbæjar næmi tugum ef ekki hundruðum milljóna á ári. Fasteignagjöld eru reiknuð út frá fasteignamati sem byggir á byggingar- og matsstigi fasteigna eftir framgangi framkvæmda. Ábyrgð á réttri skráningu er á höndum byggingastjóra og/eða forráðamanns fasteignar, eftirlitið er á hendi sveitarstjórnar sem hefur hag að því að fasteign sé rétt skráð.
Tillögur Sjálfstæðisflokksins.
Í janúar 2012 setti ég þetta mál á dagskrá í Skipulags- og byggingaráði Hafnarfjarðar (SBH) þar sem upplýsingar lágu fyrir um stórkostlega mismunun á fasteignaeigendum á álagningu fasteignagjalda. Eftir að hafa fengið neitun frá formanni SBH um að setja málið á dagskrá í febrúar í SBH og tekið málið upp í bæjarstjórn var „Byggingastig og skráning“ sett á dagskrá SBH þann 3. apr. 2012. Þar lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram ítarlegar tillögur í 5 liðum, þar sem við í ljósi umfangs málsins lögðum m.a. til að ráðinn yrði starfsmaður tímabundið einungis til að yfirfara skráningu á fasteignum. Einnig lögðum við til að vinnunni yrði þannig háttað að fram kæmi hvet raunverulegt tekjutap Hafnarfjarðarbæjar væri vegna rangrar skráningar fasteigna, meirihluti SBH hafnaði þessum tillögum. Í grein í Fjarðarpóstinum „Glötuð fasteignagjöld“ þ. 18. apríl 2012 fór ég yfir þetta mál. Þess ber að geta að stór iðnaðarhúsnæði sem höfðu verið í notkun í allt að 15 ár voru skráð á bygginga- og matsstig 1 og greiddu aðeins um 10% af fasteignaskatti til bæjarins. Tap bæjarins vegna rangrar skráningar á húsnæði skiptir mörg hundruðum milljóna króna, en við vitum ekki upphæðina með vissu þar sem tillögum okkar var hafnað.
Tveimur árum seinna.
Fram hefur komið að tekjur vegna átaks í skráningu á fasteignum eru áætlaðar á tveimur síðustu árum um 260 milljónir. Farið var yfir vinnu Skipulags- og byggingasviðs á fundi SBH þann 17. des. sl. á skráningu á húsnæði, kom þar fram að verulegur árangur hefur náðst, en langt í frá að vera lokið. Bókun um að ráða starfskraft tímabundið í þessa vinnu var samþykkt samhljóma og virðast fulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna nú loksins búnir að átta sig á hversu umfangsmikið þetta mál er. Miðað við áætlaðar tekjur síðustu tvö ár vegna átaks í skráningu fasteigna og því hve mikið er enn óunnið þá má gera ráð fyrir að tekjutap Hafnarfjarðarbæjar sé á bilinu 150-200 milljónir á ári hin síðari ár. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í SBH munu halda áfram að fylgja þessu máli eftir þar til fullvissa er fengin um að fasteignaeigendum í Hafnarfirði sé ekki mismunað í álagningu á fasteignagjöldum.
Ó. Ingi Tómasson