Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum það sem af er ársins um yfirtöku Strætó bs á akstursþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu enda hefur yfirtakan vægast sagt ekki gengið vel. Fyrst ber að nefna að notendur þjónustunnar hafa lent í miklum hremmingum, sumar mjög alvarlegar og það virðist sem stjórnendur Strætó bs sem undirbjuggu yfirtökuna hafi ekki kynnt sér nægilega vel hvers eðlis sú þjónusta er sem þeir þó voru að taka að sér. Í öðru lagi er sú mikla kostnaðarhækkun sem Strætó fer fram á að sum sveitarfélögin sem eru aðilar að verkefninu taki á sig við yfirtökuna algjörlega óásættanleg.
Eins og staðan er núna þegar níu mánuðir eru liðnir af árinu 2015 lítur út fyrir að Hafnarfjörður þurfi að greiða 205 miljónir til Strætó fyrir akstursþjónustu fatlaðra fyrir árið sem er að líða! Þessi fjárhæð var 86 miljónir árið 2014 og því er að óbreyttu um hækkun að ræða sem sem nemur um 119 miljónum króna. Reykjavíkurborg mun hinsvegar spara við þetta nýja fyrirkomulag enda lækkar kostnaður borgarinnar um nokkrar miljónir við breytingarnar. Viðræður standa yfir um breytta skiptingu kostnaðar en eftir stendur veruleg hækkun á verði fyrir þjónustuna sem ekki hafa fengist viðunandi skýringar á.
Rekstrarstjóri fjölskyldusviðs sendi síðasta haust fyrirspurn til Strætó bs í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015 um hvernig áætla bæri kostnað við akstursþjónustu fatlaðara eftir að Strætó bs tæki yfir þessa þjónustu.
Svör Strætó voru á þá leið að í ljósi þess að hagstæðir samningar væru í höfn við verktaka sem myndu sinna þjónustunni væri líklegt að verð yrði óbreytt eða lægra eins og fram kemur í svari frá Strætó sem sent var rekstrarstjóra fjölskyldusviðs haustið 2014.
Ferð til fjár…..fyrir Strætó!
Þessi himinháa hækkun á kostnaði vegna akstursþjónustuna eftir að strætó hóf að sinna þjónustunni er því alveg óásættanleg og þær skýringar sem Strætó hefur gefið halda ekki vatni. Bæjarbúar eiga heimtingu á því að fá fullnægjandi svör um um hvað fór svo hrapalega úrskeiðis hjá byggðasamlaginu Strætó sem er í sameiginlegri eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu enda eru það þeir sem munu greiða reikninginn að óbreyttu.
Helga Ingólfsdóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins