Ég er 18 ára framhaldsskólanemi við Flensborg, á félagsfræðibraut en ég hef ávallt haft áhuga á félagsfræði og sálfræði. Ég hef gengið alla mína skólagöngu í Hafnarfirði, frá Tjarnarási, í gegnum Áslandsskóla og þaðan inn í Flensborg. Ég hef yfirleitt verið mjög ánægður með skólagönguna, en það má vissulega alltaf gera gott betur. Ég er því viss um að það sé gott fyrir lista Sjálfstæðisflokksins að hafa einn fulltrúa sem gengið hefur í allan sinn námsferil í gegnum skólakerfið í bænum.
Ég bý í Áslandinu með foreldrum mínum, Unni Dóru Einarsdóttur og Bergi Þór Þórðarsyni og tveimur systkinum, Örnu Ýr og Þórði Andra. Mín helstu áhugamál tengjast útivist t.d. golf, veiði, skíði, fjallgöngur og jeppaferðir.
Mikilvægt að rödd unga fólksins heyrist
Ég starfa meðfram skólanum sem kynningarfulltrúi hjá Ölgerðinni en á sumrin vinn ég í skógrækt Hafnarfjarðar (Þöll) á vegum Landsvirkjunar. Ég hef ávallt verið virkur í félagsstörfum, t.d. hef ég starfað í ungmennaráði UNICEF í fimm ár en þar eru alltaf ný og skemmtileg verkefni til að takast á við. Það starf hefur gefið mér tækifæri að kynnast fólki allsstaðar að, ég hef fundað með ráðherrum og ráðamönnum og safnað mikilvægri reynslu í lífsins sparibók.
Það sem ég legg mesta áherslu á er unga fólkið eða framtíðina líkt og einhverjir myndu orða það. Mér finnst mikilvægt að við höfum ungan einstakling á lista flokksins, sem er einskonar rödd yngri kynslóða. Einhvern sem hefur aðra sýn á daginn og veginn, einhvern sem höfðar meira til æskunnar.