Næstkomandi föstudag 4. desember verður hrundið af stað landssöfnun til styrktar fólki sem bundið er í hjólastól. Félagssamtökin „Við stólum á þig“ standa fyrir söfnuninni sem stendur til 7. desember og byrjar hér í Hafnarfirði. Sölufólk mun ganga í hús og selja margnota innkaupatöskur og mánaðarskammt af umhverfisvænum maispokarúllum fyrir heimilissorp og kostar hvoru tveggja tvö þúsund krónur en einnig er hægt að kaupa auka rúllu á fimmhundruð krónur.
Það getur reynst einstaklingum í hjólastól kostnaðarsamt að breyta hýbýlum sínum þannig að hægt er að komast á hjólastól um sitt eigið heimili. Engir sjóðir eru til fyrir fólk að sækja í til að fá styrk til svona breytinga og því vilja félagssamtökin leggja sitt af mörkum með því að stofna til söfnunarinnar.
Allur ágóði af sölunni rennur í sjóð og vilja forsvarsmenn söfnunarinnar hvetja Hafnfirðinga til að taka vel á móti sölumönnum nú um næstu helgi. Nánari upplýsingar um söfnunina er að finna hér.