Ársreikningur Hafnarfjarðar var samþykktur nú í dag og sendi meirihluti bæjarstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð frá sér eftirfarandi bókun
“Ársreikningur 2015 endurspeglar langvarandi erfiðleika í fjárhag Hafnarfjarðarbæjar og lítið svigrúm til að mæta ófyrirséðum útgjöldum. Í ljósi þeirrar stöðu var á árinu ráðist í gagngera endurskoðun á rekstri bæjarins á grunni ítarlegrar greiningar, til að tryggja stöðugleika í rekstri hans. Niðurstaða ársins 2015 sýnir glöggt hve nauðsynlegar og tímabærar þær aðgerðir voru.
Frávik frá fjárhagsáætlun ársins 2015 skýrast aðallega af kjarasamningum um launahækkanir sem reyndust umfram áætlanir, en einnig af endurkröfu um áður innheimt útsvar. Samtals drógu þessir tveir þættir reksturinn niður um tæpan einn milljarð króna.
Frá árinu 2008 hefur einungis þrisvar verið afgangur af rekstrinum. Samtals nam rekstrartapið á þessum árum rúmum 12 milljörðum króna. Rekstrarafgangur ársins 2013 skýrist einkum af tvennu. Annars vegar gengishagnaði sem var 852 milljónir króna. vegna erlendra lána og eftirá greidds útsvars, sem reyndist ranglega innheimt, að upphæð 412 milljónir króna eða samtals 1.264 milljónir króna. Bærinn þurfti á árinu 2015 að endurgreiða þessa álagningu útsvars með vöxtum, eða samtals 423 milljónir króna sem skýrir að hluta hallann sem varð árið 2015.
Afborganir skulda hafa á þessu átta ára tímabili verið fjármagnaðar með nýjum lánum og sölu eigna. Nýjum meirihluta var ljóst að þannig gæti það ekki haldið áfram. Með hliðsjón af því var ráðist í heildarúttekt á rekstri Hafnarfjarðarbæjar, sem hafði það að markmiði að snúa við þeirri óheillaþróun í rekstri bæjarsjóðs sem verið hafði undangengin ár og tryggja að afborganir lána og nýframkvæmdir væru fjármagnaðar með afgangi í rekstri.
Í fjárhagsáætlun ársins 2016 og þriggja ára áætlun bæjarins koma þessi markmið skýrt fram, þ.e. gert er ráð fyrir rekstrarafgangi á árinu 2016 og árunum þar á eftir. Jafnframt að veltufé frá rekstri verði nógu mikið til að standa undir nýframkvæmdum og greiðslu afborgana. Engar lántökur eru fyrirhugaðar hjá bænum. Gangi þetta eftir stendur rekstur Hafnarfjarðarbæjar á tímamótum. Sögu rekstrartaps undanfarinna ára og fjármögnun afborgana lána með nýjum lántökum er lokið. Það eru bjartir tímar framundan í Hafnarfirði.”