Á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar er nú auglýst útboð á hönnun á nýju hjúkrunarheimili á Sólvangsreitnum. Þetta er ánægjulegur áfangi og áætlanir gera ráð fyrir því að nýtt hjúkrunarheimili muni taka til starfa í apríl 2018. Heimilisfólk á Sólvangi mun flytjast á nýtt húkrunarheimili sem byggt verður samkvæmt nýjustu kröfum um sérrými og annan aðbúnað. Eldri bygging mun nýtast áfram fyrir stoðþjónustu og mögulega fjölgun rýma ef samningar takast og hefur verkefnisstjórn sem skipuð var um bygginguna verið falið að skoða í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið með hvaða hætti best verður tryggt að Sólvangur skipi í framtíðinni þann sess í hugum hafnfirðinga að vera miðstöð öldrunarmála í Hafnarfirði.
Miklir möguleikar eru á svæðinu til að byggja upp nútímaþjónustu fyrir þennan aldurshóp sem styður við sjálfstæða búsetu og tryggir á sama tíma öryggi og aðgang að þjónustu og afþreyingu eftur þörfum hvers og eins. Verkefnastjórn um bygginguna er skipuð fulltrúum allra flokka auk þess sem í henni sitja formaður Öldungarráðs Hafnarfjarðar og fulltrúi frá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði. Formaður verkefnisstjórnar er Helga Ingólfsdóttir, formaður Umhverfis og framkvæmdaráðs.