Nýjasti Fjarðarpósturinn slær upp forsíðufyrirsögninni: „Hækka á fasteignaskatta í Hafnarfirði“, en fréttin með fyrirsögninni fer svo út í aðra sálma og lesendur eru skildir eftir, litlu nær sannleikanum. Úr því er bætt hér, því fyrirsögnin er aðeins helmingur sögunnar.
Gjöld íbúðareigenda til vatnsveitu og fráveitu hafa undanfarin ár verið mun hærri en reksturinn hefur útheimt og því hefur verið arður af þeim, sem ekki á að vera markmið með veitustarfsemi. Þessi gjöld verða núna lækkuð og fasteignaskattur hækkaður á móti þannig að niðurstaða gjaldanna verður í heildina óbreytt fyrir húsnæðiseigendur í Hafnarfirði. Og reyndar ekki alfarið, því vegna þess að eldri borgarar njóta afsláttar af fasteignaskatti en ekki veitugjöldum, þá verður niðurstaða þeirra nokkru hagstæðari en annars hefði orðið. Mestu skiptir hins vegar að þessi aðgerð, sem núllast almennt út gagnvart íbúum, kemur að gagni við að styrkja fjárhag bæjarins og það kemur öllum Hafnfirðingum til góða.