Þessa dagana horfast sveitarfélögin í augu við erfiðari rekstur vegna aukinna launahækkana að undanförnu. Þannig er Reykjavík að vakna upp við versnandi stöðu og hefur m.a. nú þegar gripið til þess að skerða heimaþjónustu við eldri borgara höfuðborgarinnar.
Hafnarfjarðarbær býr að því að hafa látið gera úttektir á rekstri bæjarins, sem lagðar voru fram og birtar bæjarbúum fyrir sl. sumar, og hefur þannig tekið frumkvæði sem kemur bænum núna til góða. Úttektirnar gefa tilefni til fjölda tillagna til að bæta reksturinn enn frekar, sem verið er að vinna úr með þátttöku bæjarfulltrúa, starfsmanna bæjarins og annarra sem koma að málum. Þessar tillögur geta samtals skilað bæjarfélaginu og íbúum þess hundruðum milljóna króna á hverju ári – þar sem markmiðið er jafnframt að tryggja jafn góða þjónustu eða betri við íbúa og fyrirtæki bæjarins.